Beint á leiđarkerfi vefsins
Aftur á forsíđu vefs

Fréttir Allir út

Fréttir Allir út - RSS

17.3.2014

Gjótuskođun í Gálgahrauni

Ferðafélag barnanna gerði góða ferð í hið umtalaða Gálgahraun í Garðabæ um liðna helgi. Þar fundust margir góðir hellisskútar, göt og göng og að auki nokkuð óyggjandi minjar um dvöl útilegumanna í hrauninu!

Veðurspáin var afleit en tæplega 20 manns létu rigningaspá ekki hafa áhrif á sig og mættu galvaskir í hraunið í viðeigandi regnbúnaði. Regnfötin reyndust svo þegar allt kom til alls óþörf þar sem rigningin lét aldrei sjá sig.

2014-03-15 11.55.14

Hópurinn byrjaði á því að leggjast yfir kort, ákveða leiðina og finna gömlu Fógetagötuna sem var svo fjölfarin á árum áður að hún er bókstaflega greypt ofan í hraunið. Hraunið er mjög úfið og sprungið, í raun algjör völundarheimur og fljótlega var ekki hægt annað en að kíkja aðeins út fyrir stíginn til að skoða hraungjótur og gjár, meðal annars gat sem hægt var að ganga í gegnum og helli sem rúmaði öll börnin.

2014-03-15 13.10.46

Í nálægri gjótu fundust svo tveir pottar og eldgömul kókflaska með korktappa og þá þótti einsýnt að þarna væru komin elhúsáhöld Arnesar Pálssonar, útilegumanns og vinar Fjalla-Eyvindar og Höllu en hann faldi sig um tíma í þessu hrauni. Þó voru ekki allir að kaupa þessa skýringu og líklegri tillaga þótti að þetta væri bara rusl eftir nútíma útilegumenn!

2014-03-15 12.01.06

Áfram var svo haldið í átt að Gálgaklettum sem er í raun þríklofinn klettur þar sem þjófar voru hengdir í gamla daga. Þá voru þeir fluttir frá fangelsinu á Bessastöðum annað hvort á báti eða gangandi eftir Sakamannastíg og svo voru þeir dysjaðir á Gálgaflöt eða í nálægum gjótum.

2014-03-15 12.47.07

 

Stöð 2 slóst með í förina fyrstu metrana og hér má sjá frétt þeirra um leiðangurinn.

Hér er svo hægt að skoða fleiri myndir. Forsíđa »

Fréttir

Stjórnborđ

Minnka letur Stćkka letur Hamur fyrir sjónskerta