Beint á leiđarkerfi vefsins
Aftur á forsíđu vefs

Fréttir Allir út

Fréttir Allir út - RSS

20.11.2013

Föndurfjör og jólasnjór

Lítil og þrjósk húsamús, sautján rúllandi smalahöfuð, lungamjúkur kafsnjór og snjóþotuburður af Krossárgrjóti kom allt við sögu í aðventuferð Ferðafélags barnanna inn í Langadal í Þórsmörk um síðustu helgi.

Óttar og Benjamín

Ferðin hófst á óhjákvæmilegu landsleiksstoppi í Hlíðarendasjoppunni á Hvolsvelli þar sem hópurinn graðgaði í sig skyndibitamat og horfði á jafnteflisleik Íslands og Króatíu. Leiðin var greið yfir árnar alla leið inn í Langadal þar sem Dóri skálavörður var búinn að undirbúa Skagfjörðsskála og hita hann upp.

Skagfjörðsskáli í vetrarham

Þó nokkuð væri liðið á kvöld var samt tími til að smakka á snjónum, renna sér aðeins í næstu brekku og búa til heljarlanga snjókerlingu sem fékk það hlutverk að hýsa kerti á kvöldin og lýsa leiðina upp í skála.

Rennigaman

Næsta morgun hélt hópurinn í gönguför yfir í Húsadal með nokkrum stoppum, m.a. til að klifra í línu upp í hellinn Snorraríki. Snjórinn lá þungur yfir öllu og landslagið minnti helst á púsluspil eða póstkort frá útlöndum með mjúku landslagi og hangandi trjágreinum.

Hrefna og Erna

Að göngu lokinni var farið niður að Krossá til að safna steinum til að mála og svo hófst hin dægilegasta föndurstund í borðstofu skálans. Lítil mús ákvað að heimsækja okkur í föndrið og var ekki par sátt við að vera vísað út úr húsi því hún kom aftur um nóttina!

Gengið yfir brúna

Eftir kvöldmat og kvöldvöku var svo kveikt í kyndlum og gengið í Skáldagil í upplestur og söng og endað í meiri söng og kyndlavarðeldi áður en allir fengu sér kakó fyrir svefninn.  

Með glampa í augum

Um nóttina bætti enn í snjóinn og á sunnudaginn þurftu yngstu börnin að vaða snjó upp í mitti til að komast inn í Slyppugil. Þar var farið í nokkra leiki áður en krakkarnir fengu að finna nýja leið heim í skála.

Engill

Það var afar erfitt að kveðja þetta dásamlega vetrarríki, setjast upp í hoppurútuna hjá Sverri bílstjóra og halda heim á leið. Á leiðinni kom hópurinn við inn í Nauthúsagil til að skoða hrísluna frægu og sumir létu sig bara hafa það að verða blautir á tánum og stikluðu alla leið inn í enda gilsins.

Hér má sjá fullt af myndum.

Inni í Nauthúsagili

 Forsíđa »

Fréttir

Stjórnborđ

Minnka letur Stćkka letur Hamur fyrir sjónskerta