Beint á leiđarkerfi vefsins
Aftur á forsíđu vefs

Fréttir Allir út

Fréttir Allir út - RSS

20.8.2013

Drullumall og bullusögur

Það var nokkuð misjafnt hvað krökkunum í Ævintýraferðinni um gamla Kjalveg um síðustu helgi þótti skemmtilegast. Sumir sögðu drullumallið, aðrir kyndlarnir og bálið og enn aðrir draugasögurnar, á meðan bátsferðin og jöklagangan stóð upp úr hjá einhverjum. Allir skemmtu sér hins vegar konunglega og þær eru æði margar bullusögurnar sem urðu til á göngunni og sitja eftir í minningu þátttakenda, til dæmis um það af hverju Kerlingafjöll heita Kerlingafjöll og Fúlakvísl, Fúlakvísl.

Göngustafagerð

Þetta var annað sumarið í röð sem Ferðafélag barnanna hélt upp á Kjöl og ekki var þessi ferð síðri en sú fyrri. Fullt var í ferðina og voru þátttakendur alls 28 manns, 11 fullorðnir og 17 börn og unglingar.

Haldið var af stað með rútu frá Reykjavík klukkan 11 á föstudagsmorgni og eftir að búið var að tryggja góða ferð með því að leggja steina í vörðuna á Bláfellshálsi, kom hópurinn sér fyrir í gamla skálanum í Hvítárnesi og tók til við göngustafagerð. Svo var siglt á Hvítárvatni inn að Langjökli þar sem gengið var með ísaxir upp á jökulinn.

Í Karlsdrætti

Áður en siglt var til baka var hoppað í land í hinum goðsagnakennda Karlsdrætti þar sem nestið var snætt í rjómablíðu og fyllt á alla vatnsbrúsa í ískaldri og tærri uppsprettu. Eftir síðbúinn kvöldmat var svo skellt í góða kvöldvöku uppi á skálaloftinu með gítarspili og söng og mögnuðum draugasögum um hvítklæddu konuna í Hvítárnesi. Sem betur fer urðu skálagestir þó ekki varir við mikinn draugagang um nóttina.

Drullumallað

Daginn eftir var haldið nokkuð seint af stað eftir að búið var að skúra út úr skálanum og fara í leikinn Yfir, yfir þakið á skálanum. Veðrið var ljómandi gott, þurrt en nokkur norðanstrekkingur á móti göngufólkinu sem þrammaði í Þverbrekknamúla undir Hrútfellinu. Þegar komið var í náttstað gátu krakkarnir frelsað tærnar og hoppað í drullupolli fyrir neðan skálann fram að kvöldmat.

Varðeldur

Kvöldvakan fólst svo að þessu sinni í sögum af hörmulegum örlögum Reynistaðabræðra og varðeldasöng á meðan logandi kyndlar lýstu upp umhverfið. Eftir varðeldinn skiptust krakkarnir svo á um að segja hópnum stórkostlegar bullusögur um örnefnin sem urðu á vegi okkar fyrr um daginn.

Undir Hrútfelli

Þegar búið var að kveðja Óla bátastjóra og Heiðu trúss morguninn eftir byrjaði hópurinn á því að skoða leynitjörnina og mjúku skessukatlana í uppþornaða árfarveginum vestur undir Þverbrekkunum og ímynda sér hvernig fossinn leit út sem þarna hefur fallið í fyrndinni.

Uppi á Múlunum voru allir útskrifaðir í kortalestri og til lukku hrasaði ekkert foreldri í bröttu skriðunni niður að Hlaupunum á Fúlukvísl enda studd styrkum barnahöndum. Ákveðið var að nýta sér göngubrúna í staðinn fyrir að hoppa yfir Fúlukvísl og eftir margar bullusögur í viðbót blasti rútan við uppi á Þröskuldi fyrir ofan Þjófadali.

Allur hópurinn

Rútan flutti þátttakendur svo á Hveravelli þar sem hópurinn skoðaði hverina á hundavaði, snaraði sér í augnablik ofan í þéttpakkaða laugina og hesthúsaði grillaðar pulsur á methraða áður en haldið var heim á leið.

Það voru svo ansi þreyttir ferðalangar sem stauluðust út úr rútunni hjá skrifstofu Ferðafélags Íslands um miðnættið á sunnudagskvöld eftir aldeilis ógleymanlega daga á Kili.

Hér má sjá fullt af myndum úr ferðinni.

Á HveravöllumForsíđa »

Fréttir

Stjórnborđ

Minnka letur Stćkka letur Hamur fyrir sjónskerta