Beint á leiđarkerfi vefsins
Aftur á forsíđu vefs

Fréttir Allir út

Fréttir Allir út - RSS

7.8.2013

Jólasöngur í ágúst!

Veðrið lék við Ferðafélag barnanna sem gekk Laugaveginn um nýliðna Verslunarmannahelgi. Þetta er eftirsótt ferð hjá félaginu en fullbókað var í ferðina snemma á árinu og komust færri að en vildu því langur biðlisti var eftir því að komast með. Alls tóku 26 manns þátt í þessari klassísku gönguferð milli Landmannalauga og Langadals í Þórsmörk; 13 börn og 13 foreldrar.

Við Markarfljótsgljúfur

Leiðin var gengin á fjórum dögum; gist í Hrafntinnuskeri, Hvanngili, Emstrum og Langadal. Þetta var frumraun flestra í svo langri göngu en öll fóru börnin, sem voru á aldrinum 7-14 ára, létt með hverja dagleið. Reyndar áttu þau svo mikla orku eftir að tvö kvöldin var farið í fótbolta og tekin var kvöldganga meðfram Markarfljótsgljúfri þegar gist var í Botnum í Emstrum.

Blysganga í Langadal

Ferðinni lauk svo með grillveislu, varðeldi og kyndlagöngu að skála Jóhannesar úr Kötlum í Skáldagili við Langadal, þar sem sungin var sálmur skáldsins: Bráðum koma blessuð jólin. Höskuldur Jónsson, fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands, slóst í för með leiðangursmönnum við það tilefni.

Áður en haldið var heimleiðis daginn eftir var svo kíkt í Gluggahelli í Slyppugili og komið við í Nauthúsagili þar sem krakkarnir létu sig ekki muna um að vaða alla leið að fossinum inni í botni gilsins.

Í NauthúsagiliForsíđa »

Fréttir

Stjórnborđ

Minnka letur Stćkka letur Hamur fyrir sjónskerta