Beint á leiđarkerfi vefsins
Aftur á forsíđu vefs

Fréttir Allir út

Fréttir Allir út - RSS

28.6.2013

Ađ tala viđ álfa

Jónsmessan er kyngimögnuð enda gerast þá hlutir sem að öllu jöfnu gerast ekki aðra daga ársins; kýr tala, selir fara úr hamnum, óskasteinar hoppa upp úr tjörnum og margar jurtir fá galdramátt. Ríflega 30 manna hópur frá Ferðafélagi barnanna fór á kreik síðustu Jónsmessu, 24. júní til að leita að álfum og kanna galdramátt Jónsmessunnar.

Á uppleið

Það var heldur hráslagalegt uppi við malarnámuna undir Vífilsfelli þegar lagt var af stað, kalt og stöku rigningarúði. Að auki virtist sem álfarnir væru að fela sig með því að sveipa þokuslæðu yfir danspallinn sinn uppi á fjallinu, þangað sem ferðinni var heitið. Hópurinn lét það ekkert á sig fá, gekk sér til hita, skoðaði Holtasóley, þjóðarblóm Íslendinga, og fleiri jurtir á leiðinni upp og fræddist um alla þá galdra sem gerast á Jónsmessunótt þegar álfarnir fara á kreik og skilin milli mannheima og álfheima verða óljós.

Uppgangan var erfið í snarbröttum og skriðurunnum stígnum og það var sigurstund þegar brúninni var náð og hópurinn stóð inni í þokunni þar sem ýmislegt gat verið á sveimi!

Dansað fyrir álfana

Eftir að búið var að dansa hringdans og syngja álfalag fyrir álfana var haldið niður og að dálaglegum álfasteini sem stendur fallega í undirhlíðum Vífilsfells. Þar tók hópurinn höndum saman utan um steininn og lagði þriðja augað (ennið) að steininum og reyndi að ná sambandi við íbúana. Tveir töldu sig heyra einhver hljóð úr steininum en flestir töldu að álfarnir væru bara fluttir, kannski vegna óánægju með stöðuga umferð þungavéla í malarnámunni fyrir neðan húsið þeirra!

Þegar búið var að fá smá útrás fyrir klifurþörfina í nálægum klettum var svo haldið heim á leið. Líklegt má telja að krakkarnir sem gengu á Vífilsfellið munu í náinni framtíð benda stolt á fjallið í hvert sinn sem ekið er um Hellisheiðina og segja ,,Sjáið fjallið. Þarna fór ég"

Sjá fullt af myndum hér.

KlifraðForsíđa »

Fréttir

Stjórnborđ

Minnka letur Stćkka letur Hamur fyrir sjónskerta