Beint á leiđarkerfi vefsins
Aftur á forsíđu vefs

Fréttir Allir út

Fréttir Allir út - RSS

22.11.2012

Vetrargleđi í Ţórsmörk

Venus og Júpíter voru með í för Ferðafélags barnanna inn í Þórsmörk um liðna helgi ásamt fyrsta vetrarsnjónum, góða skapinu, dásamlegu veðri og endalausri gleði. Fullbókað var í ferðina og 53 einstaklingar, 32 börn og 21 fullorðinn, komu sér fyrir í tveimur rútum seinnipart föstudags og héldu af stað.

Dóri skálavörður hafði farið af stað fyrr um daginn til að hita upp skálann og gera allt klárt fyrir hópinn og bar þær fregnir að kafsnjór væri í Þórsmörk. Hvorki snjór né ár voru þó fyrirstaða fyrir Þór og Steinar rútubílstjóra sem komu hópnum heilu og höldnu inn í Langadal upp úr kl. 21:00 um kvöldið.

Útsýni af Valahnúk

Þegar allir höfðu komið sér fyrir í Skagfjörðsskála og borðað sig pakksadda af RISA súkkulaðiköku sem Díana, afmælismamma, bauð upp á var rölt í höfuðljósakvöldgöngu inn í Skáldagil. Gilið og samnefndur lítill skáli heitir eftir Jóhannesi úr Kötlum sem var skálavörður í Langadal í sjö sumur um miðja síðustu öld. Hópurinn söng Bráðum koma blessuð jólin sem Jóhannes orti og leikarapabbinn í hópnum, Gísli Örn, las einnig upp Krummasögu Jóhannesar.

Morgunin eftir vaknaði hópurinn með morgunstjörnunni Venusi, í vetrarblíðu eins og hún gerist best, kalt en bjart og ósnortinn jólasnjór yfir öllu. Þegar allir höfðu dúðað sig upp var arkað syngjandi af stað upp á Valahnúk í snjó sem náði sumum upp í mitti! Ótal dýraspor urðu á vegi hópsins og nokkrar rjúpur í vetrarbúningi. Hálfa leið upp á hnúkinn var ákveðið að einbeita sér að því að renna sér niður og rúlla í snjónum og nú fengu brekkurnar að kenna á því. Helmingur hópsins hélt að svo búnu í frekari ævintýraleiðangur í leit að grýlukertum og hellisskútum og allra mestu garparnir klifruðu í línu upp í hellinn Snorraríki.

Leikið í snjóKlifrað upp í Snorraríki

Veðrið var svo gott, snjórinn svo mikill og brekkurnar svo mjúkar og rennilegar að það var erfitt að koma sér aftur inn í skála. En þegar birtu tók að bregða var ekki um annað að ræða en að koma sér úr snjógallanum og hella sér í föndurgerðina. Föndrið var ekki tekið neinum vettlingatökum því hvert listaverkið á fætur öðru varð til og borðsalurinn tók algjörum stakkaskiptum með músastigum, málverkum og alls konar jólaskrauti. Það var átak að stöðva sköpunargleðina en það þarf víst líka að borða og eftir mat var komið að því sem margir höfðu beðið spenntir eftir og æft allan daginn fyrir: kvöldvökunni. Borðsalnum var raðað upp á nýtt og áhorfendur fengu að sjá áhættufimleika, uppistand, spurningaleiki og actionary að ógleymdum fjöldasöngnum þar sem jólalögin voru sungin í bland við nýjustu lög Ásgeirs Trausta. Fæstir vissu hins vegar af því að á meðan hópurinn söng og skemmti sér inni í skála var næstum kviknað í salernishúsinu! Gashitarinn var byrjaður að sleikja nærliggjandi hurð þegar einn pabbinn þurfti að bregða sér á klósettið, fann brunalyktina og kom með snarræði í veg fyrir frekari skaða.

Fimleikar á kvöldvökuFöndurstund

Eftir kvöldvökuna fengu allir stjörnukort frá Sigrúnu, stjörnusérfræðingsmömmunni í hópnum, og svo var farið út í stjörnuskoðun þar sem Júpíter skein skærust á lofti og Karlsvagninn, Fjósakonurnar og fleiri himintungl voru staðsett og skoðuð. Norðurljósin heilsuðu líka upp á hópinn en hins vegar voru allir sofnaðir þegar loftsteinadrífan Leonídar fór yfir himininn!

Á sunnudag var sama vetrarblíðan og á meðan krakkarnir fóru í æsispennandi ratleik um nágrennið pökkuðu hinir fullorðnu saman og skúringahetjurnar Guðrún Marta og Dagbjört fóru eins og stormsveipur um skálann. Afmælisbarn sunnudagsins var Karolina Embla sem varð sex ára og var hyllt með söng.

Japlað á grýlukertum

En nú kom babb í bátinn. Þegar halda átti af stað kom í ljós að önnur rútan var bókstaflega frosin föst í hjólförunum! Það tók smá tíma og töluvert af sjóðandi vatni áður en hægt var að þýða bremsurnar en það tókst þó að lokum. Á leið heim var stoppað örstutt hjá Seljalandsfossi til að skoða yfirstandandi sýningu náttúrunnar á mögnuðum frostskúlptúrum. Til Reykjavíkur komst svo hópurinn, sæll og þreyttur klukkan 18:00 á sunnudag.

Hér má sjá fleiri myndir, m.a. frábærar myndir frá sérlegum ljósmyndara hópsins Díönu Júlíusdóttur.Forsíđa »

Fréttir

Stjórnborđ

Minnka letur Stćkka letur Hamur fyrir sjónskerta